Það er fljótlegra og þægilegra en margan grunar að komast til Vestfjarða. Ef þú ert í Reykjavík geturðu verið komin(n) með flugi til Bíldudals, Gjögurs eða Ísafjarðar á skemmri tíma en það tæki þig að keyra upp í Borgarnes. En ef þú vilt frekar keyra, láttu þá ekki allt umtalið um vonda vegi halda aftur af þér. Þú getur komist á Vestfirðina, eftir malbikuðum vegum, á þremur tímum.  Og ef þú vilt síður keyra sjálf(ur), þá er einfalt mál að taka bara næstu rútu. Vestfirðir eru nefnilega nær en þig grunar.

Flug
Flugfélag Íslands flýgur tvisvar til þrisvar sinnum á dag til Ísafjarðar allan ársins hring og tekur flugið um 40 mínútur. Í tengslum við flugið er starfrækt flugrúta sem gengur á milli flugvallarins, miðbæjar Ísafjarðar og Bolungarvíkur.

Flugfélagið Ernir flýgur til Bíldudals og Gjögurs. Til Bíldudals er flogið alla daga nema laugardaga og tekur flugið um  40 mínútur. Flugvallarrúta gengur á milli flugvallarins, Bíldudals, Tálknafjarðar og Patreksfjarðar. Flogið er til Gjögurs frá Reykjavík á mánudögum, en einnig er boðið upp á fimmtudagsflug fram til 31. maí. Flugið tekur um 40 mínútur.

Einkabíll
Það er aðeins um þriggja stunda akstur frá höfuðborginni til Vestfjarða. Sé þjóðvegi 1 fylgt frá Reykjvavík að Dalsmynni í Borgarfirði, þar sem beygt er inn á veg nr. 60, er hægt að komast í Reykhólasveitina á þremur klukkustundum eftir malbikuðum vegi. Sé ferðinni heitið Hólmavikur er þessari sömu leið fylgt allt þar til komið er yfir Gilsfjarðarbrúna. Þar er beygt til hægri inn á veg nr. 61 til Hólmavíkur. Sá akstur tekur svipaðan tíma og til Reykhóla og er sömu leiðis á malbiki alla leið.

Frá Hólmavík er malbikaður vegur um Djúp áfram til Súðavíkur, Ísafjarðar, Bolungarvíkur, Suðureyrar, Flateyrar og Þingeyrar. Akstur á milli Hólmavíkur og Ísafjarðar tekur um 2,5-3 klst.

Frá Reykjavík er einnig hægt að keyra í Stykkishólm og taka þaðan bílaferjuna Baldur yfir Breiðafjörðinn að Brjánslæk. Þaðan er malbikaður vegur til Patreksfjarðar, Tálknafjarðar og Bíldudals.