Upplifðu VestfirðiÞað er auðvelt að koma til Vestfjarða. Fyrst má nefna að Flugfélag Íslands flýgur til Ísafjarðar alla daga vikunnar og tvisvar á dag virka daga. Flugfélagið Ernir fljúga 6 daga vikunnar til Bíldudals og einnig á Gjögur. Árið 2010 var lokið við malbikaðan veg um Djúpið og er því malbikað frá Reykjavík til norðanverðra Vestfjarða, þar með talið Súðavík, Ísafjörður, Hnífsdalur, Bolungarvík, Flateyri, Suðureyri og Þingeyri. Á sunnanverðum Vestfjörðum eru nokkrir stuttir kaflar þar sem enn hefur ekki verið lokið við malbikun en það stendur til bóta.

Vestfirðir eru leyndarmál Íslands þegar kemur að ferðaþjónustu. Vestfirðir eru elsti hluti landsins og einkennast af djúpum fjörðum og fjallgörðum. Vestfirðingar eru höfðingjar heim að sækja og kemur ekki á óvart að ferðaþjónusta á Vestfjörðum fær hæstu einkunn þegar mæld eru gæði þjónustu.

Framboð af afþreyingu er fjölbreytt en náttúran er fyrst og fremst í aðalhlutverki og því sjálfgefið að afþreying sem tengist náttúruskoðun og upplifun er ríkjandi.