380
271
Vestfirðir
www.reykholar.is

Reykhólar eru ríkir, bæði af sögu og náttúrufegurð. Svæðið er paradís fyrir áhugafólk um fugla, en grynningar, leirur, votlendi, móar og klettar skapa skilyrði fyrir ótrúlega fjölbreytt fuglalíf. Óvíða á Íslandi er hægt að sjá jafn margar fuglategundir á einum stað eins og á Reykhólum. Reykhólar eru líka sá þéttbýlisstaður á Íslandi þar sem mestir möguleikar eru á því að sjá haförn á sveimi.
Reykhólar eru sögufrægur staður, fornt höfuðból og einhver allra besta bújörð landsins á öldum áður. Við sögu staðarins koma m.a. Guðmundur ríki, Grettir Ásmundsson, Þorgeir Hávarsson, Þormóður Kolbrúnarskáld og Tumi Sighvatsson. Í þorpinu er minnisvarði um skáldið Jón Thoroddsen, en hann fæddist á Reykhólum árið 1818.
Á Reykhólum eru tvær frábærar heilsulindir, annars vegar sundlaugin góða Grettislaug, og hins vegar hin glænýju þaraböð Sjávarsmiðjunnar. Þá er í þorpinu Báta- og hlunnindasýning sem kemur gestum í beint samband við lífsbaráttu fyrri alda og útskýrir hvernig hlunnindi í hafinu, á ströndinni og í eyjunum voru nýtt. Frá Reykhólum  er líka hægt að komast í siglingar um hinar ægifögru eyjar Breiðafjarðar og ekki má heldur gleyma því að í nágrenninu er urmull fallegra gönguleiða. Barmahlíðin, eða Hlíðin mín fríða, sem Jón Thoroddsen orti svo fallega um, Vaðalfjöllin, gígtappinn tignarlegi sem teygir sig upp í heiðan himininn og Borgarlandið með sínu magnaða útsýni og huldukaupstaðnum Bjartmarssteini eru bara örfá dæmi um þá töfraveröld sem umlykur Reykhóla.