420
202
Vestfirðir
www.sudavik.is

Súðavík stendur við hinn skjólsæla Álftafjörð. Þar var mikilvægur verslunarstaður fyrr á öldum og eru m.a. til heimildir frá 16. öld um verslun við Lýbíkumenn (frá Lübeck). Árið 1882 reisti Norðmaðurinn Svend Foyn hvalveiðistöð á Langeyri og tók þá að myndast þéttbýli í Súðavík. Stöðin var starfrækt til ársins 1904 en sjávarútvegur var áfram undistaða atvinnulífsins í þorpinu, og er enn.
Súðavík er í dag tvískipt þorp. Eftir snjóflóðin hræðilegu árið 1995 var ákveðið að endurreisa byggðina á öruggu svæði lítið eitt innar í firðinum en gamla þorpið stendur áfram og er vinsælt sem sumarbyggð. Ferðaþjónusta hefur farið vaxandi í Súðavík á undanförnum árum ekki síst sökum þess að staðurinn nýtur hylli á meðal erlendra sjóstangveiðimanna. Þar var líka nýlega opnað Melrakkasetur Íslands, safn og rannsóknarsetur sem helgað er íslensku tófunni og er það þegar orðið að afar vinsælum viðkomustað ferðalanga. Enginn ætti heldur að láta hjá líða að fara í Raggagarð sem er frábær fjölskyldugarður með leiktækjum og grillaðstöðu.
Súðavíkurhreppur er afar víðfeðmt sveitarfélag, teygir sig frá Súðavíkurhlíð og inn allt Djúpið að botni Ísafjarðar. Á þessu svæði er margt sem gleður ferðafólk. Þar eru t.d. fallegar en krefjandi gönguleiðir upp á Sauratinda og Kofra fyrir ofan þorpið og í botni Álftafjarðar er létt leið við allra hæfi að perlunni Valagili. Einnig er vinsælt að ganga í Folafót en raunar má finna fallegar leiðir í öllum fjörðum Súðavíkurhrepps.
Í Litlabæ í Skötufirði hefur verið opnað safn en Þjóðminjasafn Íslands lét gera gamla bæjarhúsið upp fyrir fáum árum. Þar er nú skemmtilegur áningarstaður fyrir alla fjölskylduna og ekki spillir fyrir að selir sjást gjarnan liggja í makindum þar skammt frá.  Eyjan Vigur er tvímælalaust vinsælasti ferðamannastaðurinn í Súðavíkurhreppi en meðal annarra staða má nefna Ögur, Reykjanes og Heydal.
Af þekktum Súðvíkingum má líklega fyrstan nefna Jón Indíafara sem þar bjó snemma á 17. öldinni og var víðförlastur Íslendinga á sinni tíð. Þá má nefna Jón Hjaltason rithöfund og svo vitaskuld sjálfan „sóma Súðavíkur“, tónlistarmanninn Mugison.